Bach fæddist inn í fjölskyldu sem ól af sér 53 vel þekkta tónlistarmenn í sjö kynslóðum. Jóhann hinn ungi lærði fyrst af föður sínum en þegar hann lést flutti hann til bróður síns sem var organisti og hélt námi sínu áfram hjá honum. Á þeim tíma sem Bach var uppi voru tónlistarmenn raunverulega verkamenn, þ.e.a.s. þeir skrifuðu tónverk eftir pöntunum og eftir því hvaða stöðu þeir gegndu. Bach var t.d hirð organisti í Weimar og á þeim tíma samdi hann helstu orgelverk sín og einnig má geta þess að hinir frægu Brandenburg konsertar voru samdir fyrir markgreifann af Brandenburg. Lengsta og mikilvægasta staða sem Bach gegndi var sem kantor við kirkju Sankti Tómasar við Leipzig og á því tímabili skrifaði hann megnið af allri kirkjutónlistinni sem í dag er afar vel þekkt. Hins vegar var hann ekki sérlega ánægður með þá stöðu, því mestur tími hans fór í að kenna, spila við messur, syngja við jarðarfarir og sinna öðrum hlutum sem staðan krafðist af honum. Það þýddi að hann hafði nánast engan tíma til að semja tónlist og féll honum það illa í geð. Auk þess var hann ekki góður kennari og átti í basli með að hemja piltanna í skólanum. Þrátt fyrir það samdi hann 295 kantötur á þeim 27 árum sem hann bjó í Leipzig. Hann giftist tvisvar á lífsleiðinni og eignaðist alls 20 börn. Síðustu árin var hann orðinn mjög sjóndapur og alveg blindur síðasta æviárið og lést svo 1750 í kjölfarið á misheppnaðri augnaðgerð sem átti að færa honum sjónina aftur.
Það sem gerði Bach að einstöku tónskáldi var sá hæfileiki hans að geta samið tónlist í sérhverjum af þeim mörgu stílum sem tíðkuðust á Barrok tímabilinu. Það var annars vegar vegna þess að hann sinnti um ævina ólíkum stöðum sem kröfðust ólíkrar tónlistar og hins vegar vegna þess hversu duglegur hann var við að læra og grandskoða alla þá tónlist sem hann komst í. Alla ævi gleypti hann í sig tónlist samtímamanna sinna og með því að liggja yfir þessum verkum (og oft útsetja verkin upp á nýtt fyrir önnur hljóðfæri), öðlaðist hann mikla yfirsýn á hinum ýmsu þjóðlegu og persónulegu stílum samtímans. Alla ævi fléttaði hann þessar hugmyndir við sinn eigin persónulega stíl.
Hitt er annað mál að á meðan Bach lifði var hann best þekktur fyrir að vera fremsti organisti Þýskalands og harpsíkordleikari, enda spilaði hann mikið og víða framanaf ævi sinni. Almenningur á þessum tíma kunni hinsvegar ekki að meta tónlist hans; þeim fannst hún gamaldags og vildi heldur heyra tónverk minni spámanna sem þá voru í tísku en eru nú flest fallin í gleymskunnar dá. Það var ekki fyrr en 80 árum eftir dauða Bachs að rykið var blásið af verkum hans og farið að flytja þau á ný og fljótlega uppúr miðri 19.öld var hann settur á þann stall sem honum bar: sem einn mesti snillingur tónlistarsögunnar.
Hljóðdæmi