Schubert var sonur kennara af millistétt sem vildi að hann myndi feta í sömu fótspor. Tónlistarhæfileikar Schuberts komu hinsvegar snemma í ljós og hann söng í kór og lék á fiðlu. Hann fór þó að óskum föður síns og fór að kenna en hætti því 1818 til þess að geta einbeitt sér að tónlistinni. Hann var vel studdur af vinum sínum en gekk illa að fá tónlist sína útgefna. En það voru ekki hans einu vandræði því 1822 voru veikindi farin að setja strik í reikninginn. Hann hélt þó ótrauður áfram að semja allt til enda og samdi nokkur af sínum fallegustu verkum á síðustu árunum. Hann lést úr taugaveiki 31 árs gamall.
Það sem stendur uppúr af verkum Schuberts eru rúmlega 600 söngljóð sem hann samdi á sínum stutta ferli og það er ekki aðeins fjöldinn sem er athyglisverður heldur einnig gæði tónlistarinnar. Öll verk hans höfðu hugmyndafræði rómantíkurinnar sem einkenni: ljóðræn tjáning. Hann lét þó oft hljóðfærin í jafn mikilvægt hlutverk og söngröddina eins og t.d. í Álfakonungnum þar sem dynjandi píanóleikurinn líkir eftir hesti á stökki. Hann samdi einnig sinfóníur og kammerverk en verður helst minnst fyrir söngljóðin. Ein síðasta ósk hans var að vera jarðsettur nálægt Beethoven, tónskáldinu sem hann dáðist mest að.
,,Enginn skilur annars manns sorg, enginn skilur gleði annars manns… Tónlistin mín er afurð hæfileika minna og eymdar minnar. Og það sem ég hef skrifað í minni mestu neyð er það sem heiminum virðist líka best.”
Hljóð- og mynddæmi
Sinfónía nr.9 í C-dúr
Opus: D944
Þessi sinfónía er talin sú síðasta sem Schubert samdi. Upphaflega þótti hún of löng og erfið og sumum þóttí hún hálf afkáraleg og var hún því ekki flutt fyrr en 11 árum eftir dauða Schuberts og var það Mendelssohn sem átti heiðurinn að því framtaki.
Rósamund: Incidental music
Ballet músík nr.2
Opus: D797
Schubert var ekki meistari í því að semja óperur og balleta, flétturnar í sögunum voru ekki góðar og textarnir í óperunum slakir. Þetta verk var svo sem engin undantekning, óperan var aðeins sýnd tvisvar. Hins vegar var tónlistin þeim mun betri og hefur lifað og er þetta verk eitt það vinsælasta eftir Schubert.
Schubert, Sinfónía Nr. 8 í B Moll(ókláraða sinfónían)
Ókláraða sinfónían
Sinfónía nr.8 í B-moll
Opus: D759
Þetta verk er eitt það vinsælasta í vestrænni tónlistarsögu. Schubert byrjaði á því 1822 en tókst að krækja sér í sárasótt og lagði það þá til hliðar og kláraði það aldrei. Það lá svo í felum í 40 ár áður en það fannst og var flutt opinberlega. Fyrsti kaflinn byrjar á lágri stemmningu frá selló og bassa. Tvö aðalstefin geisla af glaðværð en eru stoppuð af með sterkri innkomu strengjanna sem láta á sér kræla við og við eftir því sem kaflinn þróast.