Velkomin - Gjörðu svo að skrá þig inn.

Magnús Þór Sigmundsson (1948) Ísland

Magnús Þór Sigmundsson (1948-)

Magnús Þór Sigmundsson

Magnús Þór Sigmundsson er eitt allra stærsta nafnið í íslenskri tónlistarsögu og er nánast sama hvar stungið er niður, hann telst meðal ástsælustu og afkastamestu laga- og textahöfunda þjóðarinnar, hefur sent frá sér ógrynni platna fyrir fólk á öllum aldri, gefið út tónlist, spilað, sungið, útsett og margt annað í tengslum við hana.

Magnús kemur úr Njarðvíkum, fæddist 1948 og ólst upp í húsinu Höskuldarkoti. Hann hafði eitthvað fengist við íþróttaiðkun á bernskuárum sínum, keppti m.a. í spjótkasti en byrjaði að fikta á gítar á unglingsaldri eða um líkt leyti og Bítlainnrásin leit dagsins ljós í Keflavík og hafði áhrif á heila kynslóð ungra Íslendinga. Magnús réði sig sextán ára á millilandaskip, tók gítarinn með í fyrsta túrinn sem var til New York en fleiri urðu túrarnir ekki enda hafði hann þá gert það upp við sig að verða tónlistarmaður.

Það var svo árið 1966 sem Magnús kynntist Jóhanni Helgasyni, leiðir þeirra lágu saman í gegnum verkamannastörf en Jóhann var Keflvíkingur. Það varð úr að Magnús gekk í hljómsveitina Rofa sem Jóhann var í og var nafni sveitarinnar breytt við það tækifæri í Nesmenn. Sú sveit starfaði til ársins 1969 og um það leyti hófu þeir Magnús og Jóhann að vinna tónlist tveir síns liðs. Fljótlega hófu þeir að koma fram á tónleikum m.a. í framhaldsskólum og í framhaldi af því byrjaði boltinn að rúlla.

Sumarið 1972 birtist fyrsta plata þeirra Magnúsar og Jóhanns en hún kom út undir merkjum þeirra sjálfra, Scorpion records og vakti töluverða athygli. Tónlistin á plötunni (sem hét einfaldlega Magnús og Jóhann) var róleg og þjóðlagakennd þar sem þeir félagar léku báðir frumsamda tónlist (við texta Barry Nettles) á gítara, sungu og rödduðu í anda Simon & Garfunkel, textarnir voru á ensku og naut lagið Mary Jane nokkurra vinsælda. Platan seldist vel og fékk hvarvetna góða dóma, hún var endurútgefin á geisladisk 1996 en hafði þá verið ófáanlega í áratugi.

Eftir þessa góðu byrjun lá leið þeirra fóstbræðra til London um haustið 1972 í leit að frægð og frama á erlendri grundu eða öllu heldur að koma sér á framfæri. Fljótlega náðu þeir eyrum forsvarsmanna Orange útgáfunnar og gerðu plötusamning við hana, smáskífa kom út með þeim félögum undir nafninu Pal brothers en útgáfan vildi fremur að þeir breyttu dúettnum í hljómsveit sem og þeir gerðu þegar mannskapur bættist í hópinn frá Íslandi – hljómsveitin Change varð þá til.

Smáskífur komu út með sveitinni, m.a. með laginu Yacketty yak, smacketty smack, og síðan kom út breiðskífa samnefnd hljómsveitinni en þá höfðu þeir Change-liðar sagt skilið við Orange records og gengið til liðs við Chappel útgáfuna. Samhliða Change verkefninu gáfu þeir Magnús og Jóhann út smáskífu hér heima vorið 1974 undir nafninu Ábót en það var barnaplata „bönnuð börnum eldri en 13 ára“ eins og stóð á plötuumslaginu, lagið Litla músin sló í gegn og hefur reyndar verið endurútgefin nokkrum sinnum síðar í nokkrum útgáfum. 1975 sendu þeir félagar frá sér aðra barnaplötu, í þetta skipti breiðskífuna Allra meina bót undir nafninu Grámann og Hrámann. Sú fékk glimrandi dóma þótt hún væri umdeild.

 

Magnús Þór

En Change ævintýrið leið undir lok í lok árs 1975 þegar meikdraumarnir virtust ekki ætla að rætast, flestir þeirra félagar fluttu heim á leið en Magnús varð áfram úti í Bretlandi, hann gerði samning við Chappel útgáfuna og samdi eitthvað af lögum fyrir aðra listamenn en fór sjálfur að vinna tónlist fyrir sína fyrstu sólóplötu. Chappel útgáfan vildi að hann setti saman sveit sem myndi flytja lög hans en það freistaði ekki Magnúsar, einnig voru uppi hugmyndir um að hann myndi gerast upptökustjóri og semja tónlist fyrir ótilgreinda söngkonu, ennfremur þreifingar um þrjár smáskífur sem hann myndi syngja á ásamt öðrum söngvara.

Það varð úr að tvær plötur komu út með Magnúsi á árinu 1976, annars vegar um sumarið þegar Happiness is just a ride away sem var í raun prufuplata sem hann vann með einu manni, Peter Solly á fjórar rásir, en kom út hér heima undir merkjum Hljómplötuútgáfunnar undir listamannsnafninu Magnus Thor. Platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og mjög góða í Vísi, hún fékk síðar fremur slaka dóma í Poppbók Jens Kr. Síðari platan kom út á vegum Fálkans fyrir jólin 1976 og hét Still photographs, sú plata hlaut þokkalega dóma í Vísi, Morgunblaðinu, Alþýðublaðinu og Poppbók Jens. Magnús sá sjálfur um söng og gítarleik en annar hljóðfæraleikur var í höndum enskra hljóðfæraleikara, Magnús samdi öll lögin á báðum plötunum en hluta textanna, þar komu enskir einnig við sögu. Einnig kom út tveggja laga smáskífa (Blue jean queen / The party is over) með Magnúsi, þessi lög voru bæði á breiðskífunni en fyrrnefnda lagið sló í gegn og er löngu orðið klassískt í íslensku tónlistarlífi.

Það fór minna fyrir Magnúsi árið 1977 á útgáfusviðinu, það þýddi þó ekki að hann stæði aðgerðarlaus enda vann hann á fullu í sínum málum í Bretlandi. Hann samdi á þessum árum og árunum á undan fjöldann allan af lögum sem síðar rötuðu inn á plötur annarra, t.d. samdi hann tvö lög fyrir plötu Vilhjálms Vilhjálmssonar, Hana nú sem kom út um vorið og annað þeirra, Þú átt mig ein, varð feikivinsælt. Hann hafði þarna jafnframt samið fjölmörg lög sem hann átti sjálfur eftir að nýta sjálfur á plötum s.s. lögin á plötunni Álfar og Börn og dagar, auk rokkóperu (tuttugu og tvö lög) sem reyndar hefur enn ekki verið gefin út. Magnús kom heim til Íslands um haustið 1977 og lék þá m.a. inn á jólaplötuna Jólastrengi.

Haustið 1978 var Magnús alkominn heim til Íslands en hann hafði þá um tíma átt í erfiðleikum í einkalífinu. Hann hafði þá þegar tekið upp allan hljóðfæraleik fyrir barnaplötuna Börn og dagar í London en söngurinn var tekinn upp í Hljóðrita í Hafnarfirði. Sjálfur söng Magnús hluta laganna en einnig komu við sögu Björgvin Halldórsson, Pálmi Gunnarsson og Ragnhildur Gísladóttir, auk Kórs Öldutúnsskóla sem lék stórt hlutverk á plötunni. Lögin hafði Magnús samið sjálfur en textarnir voru allir eftir Kristján frá Djúpalæk. Magnús hóf störf hjá barnablaðinu Æskunni og platan var gefin út af Hljómplötuútgáfunni í samstarfi við Æskuna fyrir jólin. Útkoman þótti koma vel út og vera vönduð enda fékk hún ágæta dóma í Tímanum, Vísi, Dagblaðinu og Poppbók Jens Kr. en gagnrýnanda Þjóðviljans þótti platan nokkuð þung, sá dómur varð reyndar blaðamanni Lesbókar Morgunblaðsins tilefni til gagnrýni á téðan gagnrýndanda. Það breytir því þó ekki að platan höfðaði jafnt til fullorðinna og barna, reyndar rétt eins og Allra meina bót þremur árum fyrr. Lögin Gamla myllan og Smalastúlkan báru af á plötunni hvað vinsældir snertir.

 

Magnús Þór

Árið 1979 hélt Magnús áfram að gefa út plötur og þá kom þemaplatan Álfar út, hann hafði sem fyrr segir samið efnið nokkrum árum áður þegar hann dvaldi í Bretlandi, Álfar var fyrsta plata Magnúsar í langan tíma sem hann vann eingöngu með íslenskum tónlistarmönnum. Hann annaðist sönginn að mestu sjálfur en meðal annarra söngvara má nefna Jóhann Helgason fóstbróður hans sem Magnús hafði ekki unnið með síðan á Change árunum en þeir höfðu endurnýjað kynni sín um vorið, hluti Þursaflokksins lék einnig á Álfum. Upphaflega hafði platan átt að koma út í Bretlandi en þar hafði enginn áhuga á efninu, Fálkinn var tilbúinn að gefa plötuna út með því skilyrði að hún yrði á íslensku en textarnir höfðu upphaflega verið á ensku, unnir upp úr bókinni The legend of the gnomes. Tvö lög plötunnar hafa lifað góðu lífi til dagsins í dag, titillagið Álfar (Eru álfar kannski menn?) og Jörðin sem ég ann. Álfar fengu góða dóma í Tímanum, Dagblaðinu og Morgunblaðinu og þokkalega dóma í margnefndri bók Jens Kr. Guðmundssonar, Poppbókinni. Álfar voru endurútgefnir 1991 og aftur 2009.

Og Magnús kom víðar við þetta árið því hann átti lag á safnplötunni Keflavík í poppskurn ásamt fleiri Suðurnesjamönnum, þá kom hann einnig við sögu sem flytjandi og lagahöfundur á plötu Bjarka Tryggvasonar.

Samstarf hans við Jóhann hófst á nýjan leik og árið 1979 hófu þeir að vinna plötu en tafir urðu á útgáfu hennar sem varð til þess að hún kom ekki út fyrr en um haustið 1980, sú plata fékk titilinn Magnús og Jóhann og var unnin með með mjög einföldum og látlausum hætti, mestmegnis söngur og gítar.

Um þetta leyti var Magnús einnig að vinna efni á nýja plötu sem hafði vinnuheitið Sólin, með textum eftir Kristján frá Djúpalæk en hún átti að sögn að vera barnaplata, eins konar framhald af Börnum og dögum. Hann hafði um sumarið gengið í spunasveitina Steina blund og var sú sveit svo fengin til að fylgja plötunni eftir þegar hún kom út í desember eftir nokkrar tafir m.a. vegna verkfalla. Þótt hún væri eins konar framhald af Börnum og dögum reyndist hún ekki vera sú barnaplata sem fyrst var lagt upp með en tónlistin hafði þróast nokkuð í ferlinu, Magnús samdi um helming textanna á móti Kristjáni frá Djúpalæk og bar platan titilinn Gatan og sólin. Það voru SG-hljómplötur sem gáfu plötuna út en hún hafði verið tekin upp í hljóðveri útgáfunnar, Tóntækni, af Sigurði Árnasyni. Platan fékk ágæta dóma í Poppbók Jens, Dagblaðinu og Þjóðviljanum og mjög góða í Morgunblaðinu. Þess má geta að listamaðurinn Brian Pilkington teiknaði umslag plötunnar en hann hafði einnig teiknað umslög Barna og daga og Álfa, og hafði því fest sig rækilega í sessi hér á landi sem umslagahönnuður.

Næsta árið fór minna fyrir Magnúsi, hann starfaði á þessum tíma á geðdeild Landspítalans og notaði þar tónlist við að hjálpa sjúklingum þar, það var svo haustið 1982 sem næsta plata kom út en þar er líklega að finna einn allra stærsta smell Magnúsar, sjálft Ísland er land þitt. Forsaga þessarar plötu var á þann veg að þegar Magnús starfaði á vegum barnablaðsins Æskunnar áskotnaðist honum ljóðabókin Ný ljóð sem hafði komið út árið 1970 og hafði að geyma ljóð eftir fyrrverandi ritstjóra Æskunnar, Margréti Jónsdóttur. Magnús hafði gluggað í bókina og séð þar fjölda ljóða sem honum fannst eiga fullt erindi til fólks, og svo fór að hann samdi lög við nokkur þeirra og komu þau út þarna um haustið undir yfirskriftinni Draumur aldamótabarnsins, þema plötunnar er eins og titill hennar gefur til kynna draumar, væntingar og hugsanir þeirra sem fæddust í kringum aldamótin 1900 en Ingibjörg var fædd 1893. Platan fékk frábæra dóma í Morgunblaðinu og góða í Þjóðviljanum, titillagið Draumur aldamótabarnsins naut nokkurra vinsælda en lagið Ísland er land þitt varð stórsmellur plötunnar, Pálmi Gunnarsson söng það í upphaflegu útsetningunni en útgáfa sem Egill Ólafsson söng og kom út á endurútgáfu plötunnar árið 1991 varð jafnvel enn vinsælli. Fjölmargir listamenn, kórar og einstaklingar hafa gefið út lagið í sínum útsetningum og það hefur margoft verið í umræðunni tengdri því  að taka upp nýjan þjóðsöng, m.a. þegar þingsályktunartillaga þess efnis var borin upp en lagið þykir öllu auðlærðara og auðveldara í söng heldur en Lofsöngurinn Ó, guð vors lands. Draumur aldamótabarnsins seldist fljótlega upp en Magnús keypti síðan útgáfuréttinn af Geimsteini (sem hafði gefið plötuna út) og gaf hana út aftur undir útgáfumerkinu Þel, sú útgáfa plötunnar var ekki seld í plötuverslunum heldur í samstarfi við UMFÍ (Ungmennafélag Íslands). Magnús fylgdi plötunni nokkuð eftir með spilamennsku og fór m.a. um landið ásamt dávaldinum Frisenette sem skemmti hér.

 

Magnús og Jóhann

Magnús kom víðar við þetta árið og átti hann m.a. lag á safnplötunni SATT 2 og söng tvö lög á Smámyndum Magnúsar Eiríkssonar, þess má geta að hann var framarlega í félagsstarfi tónlistarmanna á þessum árum, starfaði fyrir SATT og Félag alþýðutónskálda.

Þeir félagar Magnús og Jóhann voru þarna farnir að starfa nokkuð saman aftur og komu reglulega fram sem dúett, Jóhann hafði t.d. sungið á plötum Magnúsar frá og með Álfum og þeir voru farnir að huga að næstu plötu sem dúóið Magnús og Jóhann, reyndar var Magnús einnig að vinna að næstu sólóplötu sinni en næsta verkefni hans var í óvenjulegri kantinum. Ríkissjónvarpið hafði í mars 1983 tekið upp sýningar á bresku brúðuþáttunum Palla pósti í barnatíma sínum og söng Magnús titillag þáttanna. Í kjölfarið var gefin út plata með lögum úr þáttunum en hún var hluti af fjölþjóðlegri útgáfu og hefur verið gefin út í ýmsum löndum og á ýmsum tungumálum. Lagið naut mikilla vinsælda og reyndar svo mjög að það hljómaði jafnvel úr diskóbúrinu síðla nætur á Hótel Borg eftir því sem  Dr. Gunni ritaði í grein á Pressunni löngu síðar. Íslenskir textar plötunnar voru eftir Jóhönnu Þráinsdóttur.

Næsta plata Magnúsar var einnig barnaplata en að þessu sinni samdi hann sjálfur öll lögin en textarnir komu úr ýmsum áttum, platan fékk nafnið Óli prik og komu ýmsir söngvarar við sögu hennar auk Magnúsar sjálfs en stærstu stjörnur hennar voru óneitanlega Gísli Guðmundsson sem söng titillagið um Óla prik, og Björgvin Franz Gíslason sem söng lagasyrpu en þeir voru báðir mjög ungir að árum. Dóttir Magnúsar, Anna Thelma söng einnig á plötunni en hún hafði lítillega komið við sögu á plötunni Gatan og sólin. Óli prik fékk almennt góðar viðtökur.

Sama haust (1984) kom út næsta plata þeirra fóstbræðra Magnúsar og Jóhanns, Ljósaskipti en sú plata var eins konar jólaplata og hlaut litla athygli, Skálholtsútgáfan gaf plötuna út. Þeir félagar fylgdu Ljósaskiptum lítið sem ekkert eftir en voru þó að spila nokkuð saman á þessum tíma.

Sumarið 1985 kom síðan næsta plata Magnúsar út, hún hét Crossroads og til stóð að RCA myndi dreifa henni um Evrópu en Skífan gaf hana út hér heima, engar upplýsingar er hins vegar að finna um erlenda dreifingu hennar. Platan var nokkuð rokkaðri en fyrri plötur Magnúsar, lögin voru eftir hann sjálfan og textarnir að mestu en þeir voru á ensku. Crossroads fékk þokkalega dóma í Þjóðviljanum, Helgarpóstinum og Sjómannablaðinu Víkingi. Magnús notaði m.a. verslunarmannahelgina til að kynna efnið á nýju plötunni en þá kom hann fram ásamt Jóhanni á Gauki á Stöng.

 

Magnús Þór Sigmundsson

Um svipað leyti kom önnur Óla prik plata út undir merkjum Skífunnar, hún var unnin eftir sömu forskrift og sú fyrri, tónlistin var eftir Magnús en textarnir voru héðan og þaðan, Magnús samdi nokkra þeirra. Þeir Gísli og Björgvin Franz voru sem fyrr aðal númerin á plötunni en hún vakti ekki nándar nærri eins mikla athygli og fyrri platan, hún fékk þó góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í DV. Þetta haustið kom Magnús fram í nokkur skipti á tónleikaröð í Þórscafé undir yfirskriftinni Fimm í fullu fjöri en hann var þar einn af fimm söngvaskáldum sem þar fluttu eigin tónsmíðar.

Árið 1986 birtust í fjölmiðlum fréttir um samstarf Magnúsar og ungrar tónlistarkonu, Margrétar Eysteinsdóttur og að þau hefðu í huga að gefa út plötu saman. Þau komu eitthvað fram saman en svo virðist því samstarfi hafa lokið án þess að meira yrði úr plötugerð.  Að öðru leyti kom Magnús mestmegnis fram einn síns liðs um það leyti en reyndar birtust þeir Magnús og Jóhann í nokkrum sýningum sem tengdust tónlist fyrri áratuga og voru vinsælar á síðari hluta níunda áratugarins, þeirra á meðal má nefna sýninguna Tekið á loft í Súlnasal til dægurlanda, á Hótel Sögu.

Næsta plata Magnúsar var enn ein platan sem var tileinkuð börnum, hún hét Ég ætla að syngja og var gefin út af bókaútgáfunni Erni og Örlygi. Platan kom út á vínyl, kassettu og geisladisk en þetta var fyrsta barnaplatan sem kom út hérlendis á síðast nefnda forminu, hún var aukinheldur eina barnaplatan sem kom út árið 1987. Sjö laganna af þrettán voru gömul barnalög en sex samdi Magnús sjálfur, Magnús annaðist sönginn á henni að mestu. Eiginkona Magnúsar teiknaði umslag plötunnar og börn á leikskólaaldri völdu lögin á hana að einhverju leyti. Plötunni fylgdi textablað með gítargripum en það var nýlunda á þeim tíma.

Næstu árin var Magnús lítið áberandi í plötuútgáfu fyrir utan að árið 1989 kom út plata sem hét Ísland er land þitt og var gefin út í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, þar söng Bubbi Morthens titillagið en önnur lög söng Magnús að mestu sjálfur og hafði sér til fulltingis Hrólf Vagnsson og fáeina aðra hljóðfæraleikara, þessi plata vakti litla athygli en útgáfa Bubba af Ísland er land þitt heyrist stöku sinnum spiluð í útvarpi. Magnús var þeim mun meira áberandi sem lagahöfundur fyrir aðra og birtust lög hans á fjölda platna annarra tónlistarmanna s.s. Rúnars Þórs Péturssonar, Kristjáns Hreinssonar, Herberts Guðmundssonar og Sniglabandsins svo fáeinir séu hér nefndir en hann varð einnig fastagestur í undankeppnum Eurovision keppninnar um tíma, meðal laga hans þar má nefna Sú ást er heit (sem hafnaði í fjórða sæti 1994) en einnig má nefna lögin Yndi indý og Leiktækjasalur, sem komust í úrslit Landslagsins. Þá samdi Magnús lagið Undir regnboganum sem flytjandinn Hvalræði flutti á safnplötunni Úr ýmsum áttum en lagið var eins konar stuðningur við hvalveiðar Íslendinga.

Samstarfi þeirra Magnúsar og Jóhanns var auðvitað hvergi nærri lokið og haustið 1992 kom út platan Afmælisupptökur en þá voru liðin tuttugu ár frá fyrstu plötunni, lög plötunnar voru öll áður útgefin en í nýjum útgáfum og voru tekin upp á Púlsinum við Vitastíg, sjónvarpsþáttur var einnig gerður um þá félaga af sama tilefni. Næsta ár, 1993 kom síðan út platan Lífsmyndir með þeim félögum sem var safnplata en hafði einnig að geyma nokkur ný lög flutt af þekktum söngvurum, þeirra á meðal var lagið Ást við fyrstu sýn með Páli Óskari.

Árið 1994 fóru þeir Magnús og Rafn Jónsson (Rabbi) í samstarf og gáfu út plötuna Íslandsklukkur í tilefni af hálfrar aldar afmæli lýðveldisins Íslands, en á henni fluttu ýmsir söngvarar gamla slagara, þjóðlög og fleira ásamt Magnúsi. Þessi plata var síðar endurútgefin tveimur árum síðar undir titilinum Icelandic folk music og voru lögin þá instrumental.

 

Magnús Þór

Árið 1996 tók Magnús þátt í skemmtidagskránni Keflavíkurnætur þar sem m.a. voru flutt lög hans og annarra, hljómsveit var stofnuð í tengslum við þá sýningu og var Magnús í henni, hún hét Band-strikið en nafni hennar var síðar breytt í Keflavík þegar farið var víðar um land með sýninguna. Það var í fyrsta skiptið í langan tíma sem Magnús starfaði með hljómsveit, utan þess að hann var um skamma tíð í hljómsveit með Rúnari Þór.

Langt var hins vegar í næstu plötu Magnúsar, það var barnaplatan Leggur og skel sem kom út 1999, og hafði hún að geyma lög Magnúsar að mestu við ljóð Margrétar Jónsdóttur (eins og Draumur aldamótabarnsins) í flutningi ýmissa þekktra tónlistarmanna s.s. Þórunnar Antoníu dóttur hans, Magnús söng sjálfur þrjú lög plötunnar. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og DV.

Magnús flutti til Hveragerðis árið 2001 og næstu árin kom hann aðallega við sögu á plötum annarra listamanna og hljómsveita, hann útsetti, söng raddir og spilaði eitthvað líka á plötum t.d. með Gúnda, Vinum vors og blóma, Gumma Jóns, Sixties, Herði Torfa og Eyjólfi Kristjánssyni, en einnig átti hann lög og texta á plötum fjölmargra annarra, s.s. Jóhönnu Guðrúnar, Páls Óskars, Óskars Péturssonar, Bjarna Ara, Regínu Óskar, Ásgeirs Óskarssonar, Ragnars Bjarnasonar, Felix Bergssonar, Lögreglukórsins, Vonar, Margrétar Eirar, Gísla Hvanndal, Matta Matt, Á móti sól og Í svörtum fötum, – á plötu síðast töldu sveitarinnar var að finna lagið Dag sem dimma nátt, sem varð feikilega vinsælt, þá átti hann ennfremur efni í kvikmyndunum Gas, Hljómfagra Íslandi og Íslenska draumnum.

Eftir aldamótin fór Magnús að láta til sín taka á nýjan leik í Eurovision og öðrum skyldum keppnum eftir nokkurt hlé, hann samdi t.d. enska textann (ásamt Einari Bárðarsyni) við lagið Angel sem Two tricky flutti í úrslitum Eurovision í Kaupmannahöfn 2001, hann samdi einnig enska textann við lagið Heaven sem Jónsi flutti í Istanbul 2004. Magnús átti jafnframt nokkur lög og texta í undankeppnunum hér heima næstu árin, sem og í keppnum eins og Sæluviku Skagfirðinga, Ljósanæturkeppninni og Sönglagakeppni Rásar tvö.

Árið 2002 gaf dóttir Magnúsar, Þórunn Antonía út plötuna Those little things en platan var í raun samstarfsverkefni þeirra feðgina því Magnús samdi öll lög hennar utan eitt, og auk þess flesta textana, hann lék jafnframt á henni líka. Þau höfðu unnið að plötunni í þrjú ár áður en hún kom út. Á þessum árum var hann því mun meira áberandi í samstarfi við aðra tónlistarmenn heldur en að gefa út plötur sjálfur, árin 2003 og 04 átti hann nokkur lög á safnplötunum Íslensk ástarljóð og Vetrarljóð en þar reis hæst án nokkurs vafa lagið Ást sem Ragnheiður Gröndal sló í gegn með en lagið var kjörið lag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Magnús var hvergi nærri hættur að koma fram opinberlega en segja má að hann hafi valið sér orðið öllu rólegri starfsvettvang í því tilliti, hann hefur  t.d. frá aldamótum komið nokkuð fram í kirkjum og þess háttar lágstemmdari tónleikastöðum.

Það var svo árið 2005 sem kvað að Magnúsi á nýjan leik á hljómplötusviðinu eftir alltof mörg ár en þá hafði hann í raun ekki sent frá sér eiginlega sólóplötu síðan 1985 þegar Crossroads kom út. Platan bar titilinn Hljóð er nóttin, kom út á vegum Steinsnars og hafði að geyma fimmtán lög hans frá ýmsum tímum en í lágstemmdum og afslöppuðum útsetningum, platan var unnin í samvinnu við Jón Ólafsson sem vann útsetningar með honum ásamt því að stjórna upptökum, með þeim var hópur valinkunnra tónlistarmanna. Í viðtali við Magnús kom í ljós að hann hefði valið um tuttugu lög af um 4-500 til að vinna úr, sem sýnir hversu afkastamikill hann hefur verið í tónsmíðum sínum. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu en slaka í DV.

Magnús Þór Sigmundsson

Magnús varð í kjölfarið á þessari plötu nokkuð aktívari í útgáfumálum, bæði hvað varðar sólóferilinn sem og samstarfið við Jóhann Helgason. Hann varð einnig nokkuð áberandi í fjölmiðlaumfjöllun, samdi til dæmis lag fyrir heimabæ sinn, Hveragerði sem fagnaði sextíu ára afmæli árið 2006, söng það ár einnig á tónleikum til heiðurs John Lennon í Háskólabíói og kom fram á söngvaskáldakvöldi 2007 svo nokkur dæmi séu nefnd en þá um haustið sendi hann einnig frá sér næstu plötu. Hún bar heitið Sea son og var að sögn Magnúsar eins konar uppgjör við fyrri hluta ævinnar en hún hafði að geyma skírskotanir til hafsins en faðir hans hafði verið sjómaður, þótt platan yrði ekki mjög áberandi í umræðunni fékk hún mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Jóhann Helgason hafði lítillega komið við sögu á Sea son og í kjölfarið fóru þeir fóstbræður að spila meira opinberlega saman, þeir birtust t.a.m. á Menningarnótt sumarið 2008 og héldu fjölmarga tónleika um haustið. Magnús kom fram í tónleikaröð Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram í Salnum árið 2009 og það sama ár fór hann í samstarf við Fjallabræður sem gaf af sér lagið Freyja eftir Magnús (auk annars lags) en hann kom einnig eitthvað fram með kórnum . Hann kom einnig fram á tónleikum með Páli Rósinkrans.

Jón Ólafsson leiddi þá Magnús og Jóhann í hljóðver árið 2010 og þá voru tekin upp átta lög eftir þá félaga sem aðrir listamenn höfðu gert vinsæl, í framhaldinu voru valin þrjátíu og tvö lög til viðbótar frá ferli þeirra félaga og vegleg tvöföld safnplata var síðan gefin út í kjölfarið af Senu í tilefni af fjörutíu ára starfsafmæli þeirra undir titlinum Ástin og lífið 1971-2011. Þeir félagar, Magnús og Jóhann fóru síðan um víðan völl við tónleikahald þetta árið og hituðu m.a. fyrir bandarísku hljómsveitina Eaglesí Laugardalshöllinni um sumarið sem og á Menningarnótt en Magnús samdi einn nokkurra sálma sem fluttir voru í verkefninu Sálmafoss sem Hallgrímskirkja hélt utan um.

Og fyrst þeir Magnús og Jóhann voru komnir af stað þá fylgdi önnur plata í kjölfarið haustið 2012, Í tíma þar sem þeir fluttu ný lög, þar bar hæst lagið Sumir dagar sem Magnús þótti syngja af innlifun. Efnið hafði að mestu verið tekið upp í sömu upptökutörninni og lögin átta fyrir safnplötuna. Þeir fylgdu plötunni eitthvað eftir með spilamennsku og komu reyndar áfram fram reglulega næstu árin, Magnús fór einnig aftur í samstarf við Fjallabræður og stjórnanda þeirra Halldór Gunnar Pálsson en hann samdi texta við tvö þjóðhátíðarlög Halldórs, Þar sem hjartað slær (2012) í flutningi Fjallabræðra og Ástin á sér stað (2015) en það voru þeir Friðrik Dór og Sverrir Bergmann sem fluttu síðarnefnda lagið.

Árið 2017 sendi Magnús frá sér plötu í samstarfi við píanóleikarann Tómas Jónsson, hún hét Icelandic music of silent nature, music for Jenny: 15 loved Icelandic featuring the piano, og var tvöföld. Platan innihélt sautján lagasmíðar, flestar þekktar úr fórum Magnúsar en einnig nýjar smíðar í rólegum píanóútsetningum en lögin voru frá sex og upp í fjórtán mínútur að lengd og var um tvo og hálfan tíma af efni að ræða.

Um líkt leyti vann Magnús að plötu með hljómsveitinni Árstíðum en hann hafði sett sig í sambandi við sveitina þar sem hann fann til einhvers andlegs skyldleika með þeim, afraksturinn varð platan Garðurinn minn, tvöföld plata með nýjum frumsömdum lögum sem bæði var gefin út á vínyl og geislaplötu árið 2018, tónlistin er lágstemmd og leika raddir Magnúsar og hljómsveitarinnar stórt hlutverk. Magnús gaf plötuna út sjálfur undir eigin merkjum rétt eins og píanóplötuna, og í framhaldinu hélt hann tónleika ásamt Árstíðum sem vöktu nokkra athygli. Platan fékk mjög góða dóma hjá Arnari Eggert Thoroddsen en lagið Elísabet naut einna helst vinsælda.

Þótt Magnús sé kominn yfir sjötugt (hélt í tilefni af því stóra afmælistónleika í Háskólabíói með einvala liði tónlistarfólks) er hann enn nokkuð virkur og skapandi í tónlist sinni, kemur reglulega fram á tónleikum og oft ásamt Jóhanni Helgasyni, hann hefur einnig verið duglegur að starfa með sér mun yngra fólki eins og samstarfið við Árstíðir, Tómas Jónsson og Þórunni Antoníu vitnar til um en hann hefur einnig á síðustu árum verið að starfa með ólíku tónlistarfólki og hljómsveitum eins og Lúðrasveit Þorlákshafnar, Stefáni Jakobssyni og mörgum öðrum.

Tónlist hans er eins og gefur að skilja að finna á hundruð útgefinna platna, bæði plötum annarra tónlistarmanna og hljómsveita, á safnplötum og svo auðvitað plötum sem hann hefur komið beint að en þær reiknast til að vera um þrjátíu, sólóplötur, barnaplötur, ásamt Jóhanni Helgasyni, safnplötur o.s.frv.

Efni á plötum

 

Heimild: www.glatkistan.com