Velkomin - Gjörðu svo að skrá þig inn.

Gunnar Reynir Sveinsson (1933-2008)

Tónlistarferli Gunnars Reynis Sveinssonar hefur gjarnan verið skipt upp í tvö tímabil, annars vegar skeið sem hann starfaði sem hljóðfæraleikari í djass- og danshljómsveitum og hins vegar tónskáldatímabilið sem segja má að hafi hafist um leið og hinu fyrra lauk. Hann þótti afar fær á báðum sviðum og hefur jafnan verið nefndur sem upphafsmaður kammerdjassins á Íslandi.

Gunnar Reynir Sveinsson fæddist í Reykjavík 1933 og hóf snemma tónlistariðkun, hann sagði frá því í viðtölum að hann hefði sem ungur krakki blístrað gegn greiðslu en síðar tóku annars konar hljóðfæri við. Hann lærði t.d. á harmonikku hjá Ólafi Péturssyni áður en hann eignaðist trommusett sextán ára gamall og hóf að læra hjá Skapta Ólafssyni og síðan Svavari Gests, framan af voru trommurnar aðalhljóðfæri hans.

Hann hafði ekki verið hár í loftinu þegar hann hóf að hlusta á djasstónlist, líklega fyrir tíu ára aldur og þá var ekki aftur snúið, ekki liggur fyrir hver fyrsta hljómsveit hans var en hún lék í Vetrargarðinum í Tívolí árið 1949, síðan komu þær hverjar á fætur annarri, Hljómsveit Karls Jónatanssonar og Tríó Eyþórs Þorlákssonar áður en hann gekk til liðs við KK-sextettinn þar sem hann hóf að leika á víbrafón, hann lék þó áfram eitthvað á trommur með sveitum eins og sveit Carls Billich. Aðrar sveitir sem hann lék með fram á sjöunda áratuginn voru Icelandic All star, Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar, Orion, Fimm í fullu fjöri, Atlantic kvartettnum og Hljómsveit Finns Eydal sem hann starfaði með til áramótanna 1963-64 en þar með lauk hljómsveitaferli Gunnars Reynis, hann gekk gjarnan á þessum árum undir nafninu Gunni Sveins en það breyttist við þessi tímamót.

Gunnar Reynir kom víða við í tónlistinni meðan hann var virkur hljóðfæraleikari og t.d. lék hann með ýmsum djasstónlistarmönnum sem heimsóttu klakann, þeirra á meðal má nefna Ronnie Scott og Lee Konitz en sjálfur fór hann oft m.a. til London og lék þá á djassbúllum þar og víðar, með tónlistarmönnum eins og Chet Baker, Stephane Grappelli, Svend Asmussen, Tubby Hayes og Benny Goodman en sá síðast taldi mun hafa boðið honum til að leika í hljómsveit sinni í Ameríku, hins vegar þurfti að gefa það upp á bátinn þegar Gunnar Reynir fékk ekki græna kortið til að komast vestur um haf.

Gunnar Reynir þótti afar fær víbrafónleikari, jafnvel með þeim allra færustu í Evrópu og hann er sagður hafa átt þátt í að skapa þann hljóm sem KK-sextettinn var þekktastur fyrir og með þeirri sveit lék hann í nokkur ár, m.a. á nokkrar plötur með söng Ragnars Bjarnasonar og Ingibjörgu Þorbergs, Öskubuskum og Hauki Morthens. Hann lék á nokkrum öðrum plötum um þetta leyti, m.a. með eigin sveit á plötum Hauks og Skapta Ólafssonar en sú sveit var húshljómsveit á Röðli um tíma. Þá lék hann einnig með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á plötu með Skapta og með Hljómsveit Finns Eydal á plötu sem hafði að geyma söng Óðins Valdimarssonar og Helenu Eyjólfsdóttur með lög úr leikritinu Allra meina bót, sem kom út 1961, Gunnar lék líkast til ekki inn á plötur eftir það utan þess að hann lék á plötu Magnúsar Þórs Sigmundssonar löngu síðar (1980).

Nokkur þáttaskil urðu semsagt á ferli Gunnars Reynis á fyrri hluta sjöunda áratugarins og má segja að tónlistarnám hans hafi átt stærstan þáttinn í því en hann hafði tekið upp á því að mennta sig í fræðunum seint á sjötta áratugnum, hann lauk burtfararprófi í tónsmíðum hjá Jóni Þórarinssyni árið 1961 og fljótlega eftir það má segja að tónskáldaferill hans hafi byrjað í kjölfar þess að danshljómsveitaferli hans lauk. Það var líklega Pólýfónkórinn sem fyrstur flutti verk eftir hann en hann söng sjálfur í þeim kór (og eiginkona hans einnig), um var að ræða messu fyrir blandaðan kór og einsöngvara byggða á fornum texta og var klárlega fyrsta kórverk sinnar tegundar hér á landi. Og fleiri verk fylgdu í kjölfarið sem gerðu hann smám saman að virtu tónskáldi en hann þótti afar afkastamikill í sköpun sinni, Musica nova flutti verk eftir hann og svo koll af kolli.

Gunnar Reynir fór fljótlega í framhaldsnám í tónsmíðum að loknu námi hér heima, fór til þess til Hollands þar sem hann nam einnig elektróníska tónlist. Hróður hans barst víðar og þegar hann var fulltrúi Íslands á norrænni tónlistarhátíð árið 1968 þar sem flutt voru tvö verk eftir hann má segja að hann hafi náð nokkurri alþjóðahylli sem tónskáld. Árið 1970 var fyrsta stóra tónverk hans frumflutt undir hans eigin stjórn en það var kammerdjassverkið Samstæður sem flutt var í Háskólabíói á Listahátíð í Reykjavík sem haldin var þá um sumarið í fyrsta sinn. Þar blandaði Gunnar Reynir óhikað saman stefnum úr ólíkum áttum, annars vegar klassískri hefð og nútímadjass og það átti hann eftir að gera margoft, það var við hæfi að hann tileinkaði Jóni Múla Árnasyni verkið, Gunnar Reynir og félagar fóru með Samstæður á djasshátíðir erlendis s.s. Sviss, Júgóslavíu og víðar, auk þess að flytja það í útvarpi og sjónvarpi í Finnlandi, Noregi, Bretlandi, Portúgal og fleiri löndum en það kom síðan loks út á plötu árið 1978, gefið út af Jazzvakningu sem hafði verið stofnuð þremur árum fyrr – Gunnar Reynir var síðar gerður að heiðursfélaga í Jazzvakningu.

Fleiri verk fylgdu í kjölfarið og eitt af höfundareinkennum Gunnars Reynis var blöndun tónlistarstefna, djass, þjóðlög, raftónlist, nútímatónlist og fleira en jafnframt voru verk hans af ýmsum toga, samin fyrir hljómsveitir, kóra og einsöngvara. Þannig útsetti hann t.d. íslensk þjóðlög í djassútsetningum og dæmi um slíkt mátti heyra á tónleikum Bob Magnusson group árið 1980, sem síðar var gefið út á plötu sveitarinnar. Hann skóp einnig fjölda tónverka upp úr bókmenntaarfinum, lagabálka við ljóð Steins Steinarr, Halldórs Laxness, Tómasar Guðmundssonar og fleiri.

Gunnar Reynir varð eftirsóttur fyrir tónlist sína og var margoft fenginn til að semja fyrir hina og þessa flytjendur og fyrir hin og þessi tækifæri, tónverk fyrir litla djasshljómsveit og sinfóníuhljómsveit fyrir Listahátíð 1980 er dæmi um slíkt, einnig bassakonsert fyrir Niels-Henning Ørsted Pedersen sem Jazzvakning fól honum að gera í tilefni af 10 ára afmælis félagsins, verkið Í minningu landpósta í tilefni af því að minnisvarði um landpóstana var reistur í Hrútafirði, tónlist fyrir Mótettukór Hallgrímskirkju að beiðni NOMUS, tónlist fyrir tónlistarhátíðir og aðila eins og Myrka músíkdaga, Sumartónlistardaga í Skálholti, Íslenska dansflokkinn, Skagfirsku söngsveitina o.fl. Þess má og geta að hann samdi þrjú djassverk sem frumflutt voru í Laugarneskirkju árið 1984 en það var þá í fyrsta skipti sem djasstónlist var flutti í kirkju hér á landi, þá átti hann sérstakt samstarf við myndlistamanninn Grím Marinó Steindórsson og Hrafn Andrés Harðarson ljóðskáld en þeir settu á fót sýninguna Tónmyndaljóð í Perlunni sem einnig var nýlunda hérlendis.

Undir lok sjöunda áratugarins hóf Gunnar Reynir að semja tónlist við leikhús og síðan einnig fyrir kvikmyndir og sjónvarp, hann þótti eiga auðvelt með að fanga andann í verkum þeim sem hann samdi tónlistina við og vann einnig oft að leikhljóðum tengdum leikhúsinu. Garðveisla, Svört sólskin, Dagur vonar, Fagra veröld, Glataðir snillingar og Stundarfriður eru allt dæmi um leikrit með tónlist hans og einnig má nefna kvikmyndir eins og Kristnihald undir jökli, Land og synir, Sóley og Skilaboð til Söndru en lagið Maður hefur nú (úr síðast töldu myndinni) náði feikimiklum vinsældum í flutningi Bubba Morthens um það leyti sem myndin var sýnd, lagið hafði reyndar verið samið upphaflega fyrir leikritið Undir suðvesturhimni og hefur margsinnis verið gefið út á plötum hinna ýmsu einsöngvara.

Gunnar Reynir kom sáralítið fram sjálfur á tónleikum á þessum árum, hann lék lítillega með Kammerjazzsveitinni og kom fram með djasscombói en það var líklega allt og sumt, áherslurnar lágu á öðrum stað og hann var mun uppteknari við tónsmíðar, útsetningar og tónlistarkennslu (sem hann sinnti lengi). Heimatökin voru hæg hvað tónskáldahliðina varðaði en hann var með elektrónískt stúdíó heima hjá sér sem var all sérstakt á þeim tíma.

Gunnar Reynir vann um ævina að fjölmörgum öðrum tónlistartengdum verkefnum en sem sneru beint að tónsmíðunum sjálfum, hann var um tíma í stjórn Bandalags íslenskra listamanna, hélt utan um tónlistarverkefnið List um landið sem var samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins, og skrifaði um tónlist í dagblöðum svo dæmi séu tekin. Hann lék á víbrafón og slagverk með Sinfóníuhljómsveit Íslands um árabil, stjórnaði kórum (Stúlknakór Varmárskóla og Lögreglukórnum), auk annarra verkefna.

Líf Gunnars Reynis Sveinssonar var ekki alltaf dans á rósum og eftir að hann missti eiginkonu sína úr krabbameini um miðjan níunda áratuginn var vinskapur hans við Bakkus meiri en góðu hófu gegndi um tíma, þá veiktist hann af sykursýki og missti af þeim orsökum sjónina. Hann dró sig smám saman í hlé og lést snemma árs 2008 á sjötugasta og fimmta aldursári sínu.

Fjölmörg verka Gunnars Reynis hafa verið gefin út á plötum allt frá því að Samstæður komu út 1978, sem líklega er fyrsta stóra djassplatan sem gefin var út á Íslandi. Blásarakvintett Reykjavíkur sendi frá sér plötu sem m.a. hafði að geyma verkið Burtflognir pappírsfuglar eftir hann (1987), Símon H. Ívarsson gítarleikari sem starfaði lengi með tónskáldinu gaf út plötuna Glíman við Glám: gítarverk eftir Gunnar Reyni Sveinsson (2004), Kammerkór Suðurlands sendi frá sér Til Máríu: Trúarleg tónlist eftir Gunnar Reyni Sveinsson (2005), Ásgerður Júníusdóttir mezzósópran söngkona sendi í samstarfi við Jónas Sen frá sér plötuna Langt fyrir utan ystu skóga: Ásgerður Júníusdóttir mezzósópran ásamt Jónasi Sen & Sveitinni (2011), Kammerkór Mosfellsbæjar gaf út plötuna Mitt er þitt, með nokkrum lögum Gunnars Reynis (2014) og Sigurður Flosason gaf út Tveir heimar þar sem m.a. má heyra Að leikslokum eftir tónskáldið (2014).

Þar fyrir utan hafa sönglög hans (fleiri en eitt í sumum tilfellum) komið út á tugum platna tónlistafólks og kóra eins og Kórs Langholtskirkju, Viktoriu Spans, Kristins Sigmundssonar, Mótettukórs Hallgrímskirkju & Diddúar, Samkórs Kópavogs, Kórs Flensborgarskóla, Hólmfríðar Jóhannesdóttur, Tjarnarkvartettsins, Þuríðar Baxter, Samkórs Selfoss, Hamrahlíðarkórsins, Sönghópsins Sólarmegin og Gunnars Guðbjörnssonar.

 

Heimildir: Glatkistan.com